Hvar er hægt að sprauta fylliefni?
Varir
Fylliefni í varir er meðferð sem dregur úr fínum línum á varasvæði, jafnar ósamhverfu, stækkar varir og fyllir upp í aldurstengda rýrnun. Varafylling endist í 6-12 mánuði en þó yfirleitt skemur í fyrsta skiptið.
Nasolabial / línur frá nefi að munni
Nasolabial línurnar eru línurnar frá nefi að munni. Þessar línur koma gjarnan vegna rýrnunar í djúpum fitupúðum andlitsins. Oft hjálpar að setja fylliefni í þessa fitupúða til þess að lyfta línunum upp. Þessi meðferð endist í 12-18 mánuði
Marionette / línur frá munnviki að kjálka
Marionette línurnar eru línurnar frá munnviki að höku. Þessar línur koma gjarnan vegna rýrnunar í djúpum fitupúðum andlitsins. Oft hjálpar að setja fylliefni í þessa fitupúða til þess að lyfta línunum upp. Þessi meðferð endist í 12-18 mánuði.
Nef
Fylliefni í nefið er meðferð sem breytir lögun nefsins, lagar ójöfnur, lyftir því upp og gefur unglegra yfirbragð. Fylliefni í nef blekkir augað og breytir því hvernig ljósið fellur á nefið. Þessi meðferð endist í 12-18 mánuði.
Baugalína / Tear trough
Fylliefni undir augu eða í baugalínu henta þeim sem hafa nægilega þétta húð til að bera fylliefnið. Með aldrinum rýrna fitupúðar í andlitinu og veldur því að minni fylling verður undir augum. Þessi meðferð hentar ekki öllum og stundum hentar þó betur að fylla í fitupúða í kinnum til að styðja undir augun.
Meðferðin hentar ekki þeim sem fá gjarnan bjúg undir augu vegna ofnæmis eða eru með augnpoka. Fylliefni undir augu lagar ekki dökka bauga eða mikinn bláma.
Kinnar
Þegar djúpu fitupúðarnir á þessu svæði byrja að rýrna hefur húðin minna hald, þyngdarlögmálið tekur yfir og línur hjá nefi og munnvikum verða sjáanlegri. Markmiðið með fylliefni í kinnar er að fylla í djúpa fitupúða ásamt því að gefa augnsvæði og kinnum stuðning. Oft gefur þessi meðferð neðra andliti lyftingu með meiri fyllingu í efra andliti.
Kjálki
Fylliefni í kjálka skerpir á kjálkalínunni með því að blekkja augað og breyta því hvernig ljósið fellur á andlitið. Meðferðin getur gefið andlitinu kvenlegra eða karlmannlegra yfirbragð, allt eftir því hvert markmiðið er. Fylliefni í kjálka endist í 18-24 mánuði.
Haka
Með aldrinum verður andlitið oft ferhyrnt en unglegt andlitsfall er meira þríhyrningslaga. Fylliefni í höku getur breytt lögun andlits, styrkir ákveðna andlitsdrætti og jafnar hlutföll milli nefs, vara og höku. Þessi meðferð endist í 18-24 mánuði.
Kinnbein
Þegar það vantar ekki meiri fyllingu í kinnarnar sjálfar heldur auka stuðning fyrir augu ásamt aukinni lyftingu og frískleika í andlit getur fylliefni í kinnbein hentað vel. Efninu er sprautað djúpt til að líkja eftir vexti kinnbeins. Fylliefni í kinnbein getur einnig létt á línum frá nefi og munnvikum. Þessi meðferð endist í 18-24 mánuði vegna þess að fylliefninu er sprautað djúpt.

